Á vef Rúv er að finna sjónvarpsþættina Móðurmál. Þættirnir fjalla um börn og ungmenni sem eiga annað móðurmál en íslensku og hafa hlotið Íslenskuverðlaun unga fólksins. Dagskrárgerð og umsjón: Hafsteinn Vilhelmsson.
Móðurmál – Sjónvarpsþættir
-
1. þáttur - Alisa Tertyshna
Alisa fæddist í Úkraínu árið 2012. Hún flutti með foreldrum sínum til Íslands 2019, þegar hún var átta ára, en hóf þó ekki skólagöngu fyrr en ári seinna, haustið 2020. Alissa segir að þolinmæði kennara skipti miklu máli þegar kemur að því að kenna nemendum með annað móðurmál íslensku.
-
2. þáttur - Kenzo Eghosa Awaanisha
Kenzo fæddist á Ítalíu árið 2012. Þegar hann var sex ára flutti hann til Íslands og hóf skólagöngu í Melaskóla í Reykjavík. Móðurmál Kenzo er enska. Hann segist hafa lært mikið í íslensku á því að æfa fótbolta og að vinátta sé mikilvæg þegar verið er að læra nýtt tungumál.
-
3. þáttur - Tobias Auffenberg
Tobias fæddist á Íslandi árið 2009, en móðurmál hans er þýska. Tobias les mikið og var ekki lengi að klára að lesa þær bækur sem honum fannst áhugaverðar á skólabókasafninu. Hann segir að íslenska sé skemmtilegt tungumál að læra og endalaust hægt að leika sér með málið.
-
4. þáttur - Jeremiah Páll Mascardo Patambag
Jeremiah Páll fæddist á Íslandi árið 2009. Hann ólst upp í Breiðholtinu hjá foreldrum sínum og systkinum. Móðurmál hans er filippseyska málið cebuano. Við förum í tónlistartíma með Jeremiah og kynnumst því hvernig er hægt að nýta tónlist til þess að læra nýtt tungumál.
-
5. þáttur - Anya Sara Ratanpal
Anya fæddist á Íslandi árið 2009. Hún ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur hjá foreldrum sínum og yngri bróður. Hún lærði hindí og íslensku á sama tíma og því er óhætt að segja að hún eigi þau bæði að móðurmáli. Anya segir að það sé mikilvægt að læra íslensku. Hún segir okkur líka frá alþjóðadeildinni í Landakotsskóla og stærðfræðivalinu.