Fræðsla um muninn á kröfum til barna eftir því hvort þau fæðast inn í bleika eða bláa boxið;
Kynjuð leikföng
-
Kynjuð leikföng
Þegar barn er væntanlegt í heiminn fá tilvonandi foreldrar mjög gjarnan spurningu á borð við „vitið þið kynið?“ og að sama skapi er kyn barnsins oft það fyrsta sem spurt er um að fæðingu lokinni.
Samfélagið hefur meðvitað og ómeðvitað ólíkar væntingar til barnsins eftir því hvort það er stelpa eða strákur, eftir því hvort barnið tilheyrir „bláa liðinu“ eða „bleika liðinu“. Þessir litir eru notaðir óspart til að greina kynin í sundur. Ekki er gert ráð fyrir fjölbreytileikanum innan hvors kyns heldur er gengið út frá því að strákar hafi áhuga og styrkleika á ákveðnum sviðum en stelpur öðrum.
Mikilvægt er að gleyma ekki áhrifum félagsmótunar þegar við ræðum um hversu ólík kynin eru. Strax frá fæðingu fá börnin sterk skilaboð um hvaða liði þau tilheyra og hvaða eiginleikar fylgja hvoru liði.
Leikfangaframleiðendur nýta sér liti óspart til að gera skýran greinarmun á stelpuleikföngum og strákaleikföngum. Um leið og barnið gengur inn í leikfangaverslun er því stýrt á réttan stað með litavali. Barnið velur þá annaðhvort bleika ganginn, bláa ganginn eða kynhlutlausa ganginn (sem oft er langminnsti gangurinn í versluninni). Það er ekki nóg með að leikföngin séu af sitt hvorum litnum heldur eru leikföngin afar ólík. Strákaleikföng miða gjarnan að því að strákar séu virkir, skapandi, sterkir og einnig að þeir fái mikla líkamlega útrás. Það eru t.d. ofurhetju- og lögreglubúningar, smíðadót, vopnaleikföng af öllum stærðum og gerðum, hraðskreiðir bílar og þyrlur. Ekki má gleyma því að heill heimur af Lego hefur verið búinn til fyrir stráka. Þeir geta valið um að smíða allt mögulegt, allt frá geimskipum yfir í dýflissur. Lego fyrir stráka reynir töluvert á sköpunargáfu þeirra, ímyndunarafl, útsjónarsemi og þolinmæði.
Stelpuleikföng miða að því að stelpur leiki sér rólega. Leikföngin ýta undir umhyggjusemi þeirra og þjónustuhlutverk, t.d. dúkkuleikföng og hreinlætisleikföng eins og ryksugur og straubretti. Einnig má finna mikið af leikföngum sem ætluð eru fyrir litlar stelpur til að huga að útliti sínu, snyrtihausar, plast hælaskór, gervi förðunarvörur, plast skartgripir og prinsessukjólar. Í ævintýrum læra þær að ef þær eru nógu sætar og fínar (sbr. t.d. sagan af Öskubusku) þá kemur draumaprinsinn og bjargar þeim!
Lego fyrir stelpur er sérhannaður heimur sem kallast „Heart lake city“, þar sem fígúrurnar líkjast fremur litlum barbie dúkkum en legóköllum. Þar búa fimm vinkonur sem búið er að nefna og hver og ein hefur ákveðið hlutverk. Viðfangsefnin í stelpu legó reyna ekki á sköpunargáfu eða ímyndunarafl barna, því fyrirfram hefur verið ákveðið að vinkonurnar annaðhvort baki bollakökur, fari í hárgreiðslu, á ströndina, á snyrtistofu eða gera heimilið sitt fallegt. Allt rólegir og yfirvegaðir leikir í anda bleika litarins.
Fyrir utan litina sem valdir eru á pakkningar leikfanganna þá má gjarnan sjá hverjum leikföngin eru ætluð með ljósmyndum eða teikningum á pakkanum. Þannig ætti hverju barni að vera alveg ljóst hvaða kyni viðkomandi leikfang tilheyrir.
Það er enginn sem segir að strákar megi ekki kaupa eða leika sér með dúkkur eða stelpur með bíla, en markaðssetning leikfanga gerir þeim það ekki auðveldara fyrir.
Afleiðingin af kynjuðu leikföngunum er sú að staðalmyndir um kynin byrja strax að vaxa í hugum barnanna. Að stelpur séu blíðar, umhyggjusamar og fallegar en strákar séu hugrakkir, háværir og sterkir. Börn eru afar ung þegar þau byrja að máta sig við þessa eiginleika því þau vilja gera og vera eins og hinir í hópnum sem þau tilheyra.
Fullorðið fólk þarf að vera meðvitað um það hvernig framleiðendur leikfanga stýra áhugasviði barnanna, það sem oft er talið sjálfstætt val barna er oftar en ekki stýrt hljóðlega af markaðsöflum. Það er mikilvægt að horfa á kynjuð leikföng með gagnrýnum augum og reyna reglulega að brjóta niður staðalmyndirnar.