Í þessu myndbandi er fjallað um mikilvægi sjálfsþekkingar í nútímasamfélagi og hvernig unnið er með markþjálfun í námi í Háteigsskóla. Arndís Steinþórsdóttir skólastjóri og Ingunn Ásta Sigmundsdóttir kennari fjalla um hvernig leitast er við að efla einstaklinginn sem virkan þátttakanda í námi og skapa honum aðstæður til að skipuleggja það.
Með því að gefa nemendum tækifæri til að njóta styrkleika sinna er stutt við uppbyggingu jákvæðrar sjálfsmyndar. Markmiðið er alltaf að styðja við nemandann svo hann læri að taka ábyrgar og upplýstar ákvarðanir í tengslum við eigið líf.
Verkefnið kallast á við Menntastefnu Reykjavíkurborgar þar sem barnið er í öndvegi. Fagmennska og samstarf snýst um velferð nemenda og að örva starfsgleði þeirra og frjóa hugsun. Í kjölfar markþjálfunar styrkist þrautseigjuvöðvinn, vellíðan eykst og með bættri yfirsýn og auknum námsárangri styrkist sjálfsmyndin.