Í þessu myndbandi segja Karen Björk Guðjónsdóttir, Rut Friðriksdóttir og fleiri kennarar í Foldaskóla frá þemaverkefninu Sjálfbærni-náttúra og sköpun, sem unnið var á vormisseri 2021 í samstarfi við LÁN – listrænt ákall til náttúrunnar. Foldaskóli er Grænfánaskóli og heilsueflandi skóli og kallaðist verkefnið því vel á við áherslur skólans í umhverfismálum.
Í 5. bekk völdu nemendur og kennarar að vinna með plast og því var lögð áhersla á fræðslu um skaðleg áhrif plasts á náttúruna og endurnýtingu.
Í 6. bekk var lögð áhersla á veður og áhrif loftslagsbreytinga á náttúruna en áhersluatriði 7. bekkjar tengdust lífsferli bómullar með áherslu á að auka skilning nemenda á samhengi neyslu, samfélags og náttúru jarðar.
Í þessu verkefni var unnið þverfaglega með listamönnum á vegum LÁN og í smiðjum. Afraksturinn var m.a. sýndur í Listasafni Reykjavíkur á Barnamenningarhátíð.
Þá vann verkefnið til verðlauna í keppninni Varðliðar umhverfisins 2021, en hún er á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Landverndar og Miðstöðvar útivistar og útináms.