Vefur sem er tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi. Hlutverk tengslanetsins er að auðvelda upplýsingaskipti milli þeirra aðila sem vinna að upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi og greiða fyrir samstarfi meðlima. Á vefnum er m.a. að finna fræðslumyndbönd, hugtakalista o.fl.
Miðlalæsi
-
👉 Hér er vefur miðlalæsis 👈
Mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis aldrei verið meira
Upplýsinga- og miðlalæsi er mikilvægt til að efla gagnrýna hugsun þannig að almenningur geti dregið skynsamar ályktanir af þeim upplýsingum sem verða á vegi hans. Aðgangur að traustum upplýsingum er forsenda upplýstrar umræðu. Á síðustu árum hefur dreifing falsfrétta og upplýsingaóreiðu færst mjög í aukana á stafrænum miðlum á sama tíma og netið er að verða stærri og mikilvægari samskiptavettvangur í lýðræðislegri umræðu. Tæknibreytingar hafa gert það að verkum að auðveldara er að dreifa upplýsingum og að sama skapi erfiðara að greina uppruna og sannleiksgildi hinna ýmsu upplýsinga. Mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis hefur því aldrei verið meira.
Mótun á heildstæðri stefnu fyrir Ísland á sviði upplýsinga- og miðlalæsis
Ýmsar stofnanir, fyrirtæki og samtök hafa hingað til unnið þýðingarmikið starf tengt upplýsinga- og miðlalæsi á ólíkum sviðum. Má þar nefna Fjölmiðlanefnd með útgáfu fræðsluefnis um fjölmiðlalæsi, bókasöfn sem stuðla að upplýsingalæsi, Kvikmyndamiðstöð með verkefnum um myndlæsi að ónefndum grunn-, framhalds- og háskólum sem daglega fjalla um læsi í öllum þessum myndum. Til að hægt sé að móta heildstæða stefnu fyrir Ísland á sviði upplýsinga- og miðlalæsis, ná utan um þá þekkingu sem nú þegar er til staðar og ákveða forgangsröðun verkefna í þeirri mikilvægu vinnu sem framundan er, hefur verið ákveðið að setja á laggirnar tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi að norrænni fyrirmynd. Ólíkir aðilar geta þannig upplýst um stefnu og fyrirhuguð verkefni þannig að hægt verði að fá yfirsýn um stöðu mála hér á landi.