Félagsfærni, Læsi, Sköpun

Barnamenningarhátíð 2024 – Verkefni 4. bekkjar og lag hátíðarinnar

💙✨🦢 Barnamenningarhátíð í Reykjavík var haldin 23. – 28. apríl 2024. Eins og síðastliðin ár var lag hátíðarinnar unnið í samstarfi við börn í 4. bekk grunnskólanna í Reykjavík. Þetta árið var þema hátíðarinnar lýðræði þar sem íslenska lýðveldið varð 80 ára. Börn 4. bekkjar unnu verkefni með sínum kennurum og voru hugmyndir þeirra og svör send til hljómsveitarinnar sem vann lag Barnamenningarhátíðar upp úr vinnu þeirra. Að þessu sinni var það hin kyngimagnaða hljómsveit Celebs sem samdi lagið út frá hugmyndum barnanna. (verkefnið og lagið er að finna hér að neðan) 🦢✨💙

Tenging við menntastefnu Félagsfærni, Læsi, Sköpun
Gerð efnis Myndbönd, Verkefni
Markhópur Börn, kennarar
Viðfangsefni Læsi, sköpun, félagsfærni
  • Hugtakið lýðræði og kynning á verkefni

    💙🗳✨🦢 Listhópurinn Krakkaveldi var fenginn til að vinna myndband þar sem þau útskýrðu hugtakið lýðræði og kynntu verkefni 4. bekkjar. Viðfangsefnið verkefnisins snerist um lýðræði í víðum skilningi orðsins og var myndbandið hugsað sem kveikja að verkefni 4. bekkja í Reykjavík. 🦢✨🗳💙

    Þegar Krakkaveldi hóf vinnu sína að handriti myndbandsins fengu þau þá hugmynd að gefa börnum í 4. bekk tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri með bréfi til ráðamanna. Borgarstjóri tók virkilega vel í það og úr varð að einn liður verkefnisins væri valkvæður og gátu börnin sent bréf til borgarstjórnar.

    Ef þið eruð forvitin um Krakkaveldi þá er þau með heimasíðu

  • Verkefnið sjálft

    Lýðræði 4.bekkjarverkefni

    🗳✨ Hér er að finna 4.bekkjarverkefnið sem nemendur og kennarar gátu útfært eftir eigin hentisemi inni í sínu kennslurými. ✨🗳

    Þau réðu því alfarið hvernig vinna verkefnisins fór fram og máttu vinna alla liði verkefnisins eða taka fyrir einn hluta þess. Hlutverk kennara var að leiða umræður með nemendum um lýðræði, hvaða gildi börnin telja mikilvæg, hvar þau taka lýðræðislega þátt í ákvarðanatöku og hvort og hvernig 10 ára börn geta haft áhrif samfélagið. Að verkefni loknu sendu kennarar svör nemenda sinna til verkefnastjóra Barnamenningar. Verkefnastjóri tók saman öll svör sem bárust og sendi þau til hljómsveitarinnar Celebs sem svo vann lag Barnamenningarhátíðar 2024 upp úr svörum og hugmyndum barnanna um lýðræði.

    Hér er hægt að hlaða niður verkefnaheftinu

  • Lag Barnamenningarhátíðar 2024

     

    💙✨🦢 Hér er svo að finna lag Barnamenningarhátíðar 2024 sem þau í hljómsveitinni Celebs unnu af svo mikilli virðingu við börnin og þeirra hugmyndir um lýðræði. Mikil stemning var svo á opnunarviðburði Barnamenningarhátíðar í Hörpu þar sem öllum 4. bekkjum borgarinnar (rúmlega 1.800 börnum) var boðið upp á stórkostlega menningardagskrá sem lauk með því að þau heyrðu lagið sitt og Celebs í lifandi flutningi í Eldborgarsalnum. 🦢✨💙

    Útsetning og höfundar lags: Celebs. Valgeir Skorri Vernharðsson, Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Hrafnkell Hugi Vernharðsson
    Texti: Celebs í góðu samstarfi við börn í 4. bekkjum í Reykjavík
    Upptaka: Valgeir Skorri Vernharðsson
    Hljóðblöndun og hljóðjöfnun: Arnar Guðjónsson
    Myndbandsupptaka: Erla Stefánsdóttir og Sandra Zeilisa

    Textinn er unninn út frá hugmyndum barna í 4. bekk í grunnskólum í Reykjavík um lýðræði.

    Spyrja eftir þér:
    Ef ég fengi sko að ráða, væri alla daga skyndibiti í skólanum
    Ertu sammála, eða myndir þú mótmæla?
    Krakkarnir hér þau vilja engan her, ekkert stríð, fallegt líf og bara skemmta sér
    Á ég að segja þér, (já viltu segja mér) saman getum breytt öllu hér

    Ég er að spyrja eftir þér, komdu núna, komdu núna út að leika með mér
    Við getum breytt öllu hér, komdu núna, komdu núna láttu heyra í þér
    Komdu núna, komdu núna út að leika með mér
    Komdu núna, komdu núna láttu heyra í þér

    Verum alltaf góð við hvort annað, vonum að hún batni í hnénu hún amma
    Bjóðum fleirum heim hingað frá Gaza, hjálpum fólkinu sem hefur öllu glatað
    Oft á tíðum reynist lífið frekar leitt, reynum samt að gera frekar rétt en ekki neitt
    Á ég að segja þér, (já viltu segja mér) saman getum breytt öllu hér

    Ég er að spyrja eftir þér, komdu núna, komdu núna út að leika með mér
    Við getum breytt öllu hér, komdu núna, komdu núna láttu heyra í þér
    Komdu núna, komdu núna út að leika með mér
    Komdu núna, komdu núna láttu heyra í þér

    Ég ræð ekki öllu, en fæ að ráða sjálfri mér
    Hvað ég fæ mér á pizzu og hvaða skoðanir ég hef
    Ég ræð ekki öllu því að enginn gerir það
    En ef að ég sé eitthvað óréttlátt þá mun ég mótmæla

    Ég er að spyrja eftir þér, komdu núna, komdu núna út að leika með mér
    Við getum breytt öllu hér, komdu núna, komdu núna láttu heyra í þér
    Komdu núna, komdu núna út að leika með mér
    Komdu núna, komdu núna láttu heyra í þér

     

    Hér má finna upptöku af opnunarviðburði Barnamenningarhátíðar sem var í beinni á Rúv2

Scroll to Top