Sköpun

Hvað einkennir skapandi skólastarf?

Hér er búið að taka saman mikilvæg atriði sem einkenna skapandi skólastarf. Upplýsingarnar eru fengnar úr riti um Sköpun sem er hluti af ritröð um grunnþætti menntunnar. Ritið fjallar um skapandi starf í skólum og hvernig sköpun fléttast saman við og styður allar námsgreinar.

Tenging við menntastefnu Sköpun
Gerð efnis Fræðilegt
Markhópur Starfsfólk og starfsþróun
Viðfangsefni Barnasáttmálinn, Barnamenning, Nýsköpun, Samvinna, Sköpun og menning, Skapandi ferli, Skapandi hugsun
  • Skapandi starf

    Til þess að mæta nýrri og aukinni áherslu á sköpun í menntun á öllum skólastigum þurfa kennarar og raunar nemendur einnig að hjálpast að, gefa sér tíma til að ræða málin og vera óhræddir við að leita nýrra leiða, losa um og láta reyna á óvænt og áhugaverð vinnubrögð. Í öllum skólum fer fram skapandi starf og trúlega miklu víðar í skólastarfi en mörgum er ljóst. Stundum þarf heldur ekki mikið til að þróa það sem fyrir er eða taka mörg skref til að ýta undir og efla sköpun. Í öðrum tilvikum þarf meiri umbreytingu, jafnvel fræðslu og þjálfun í nýjum vinnubrögðum og bætta þekkingu á því hvernig skapandi starf fer fram.

    – Stuðst er við fjölbreyttar kennsluaðferðir og vinnubrögð. Skipulag er opið og sveigjanlegt. List- og verkgreinar gegna mikilvægu hlutverki í skólastarfinu.

    – Skipulagið stuðlar að samstarfi milli greina, aldurshópa og jafnvel skólastiga, verkefnum sem spanna yfir lengra tímabil, náms- og vettvangsferðum.

    – Nemendur geta oft tekið sjálfir af skarið og haft um það að segja hvernig þeir leysa verkefni.

    – Nemendur hafa tækifæri til að hafa áhrif á skólastarfið; námsefni, skipulag, námsmat, mötuneytismál, skemmtanir og margt fleira.

    -Ýtt er undir forvitni, spurningar og heilabrot. Þekkingarleit og sköpunarferli eru ekki síður mikilvæg en svör og niðurstöður.

    – Skólinn er staður þar sem nemendum líður vel og þeir eru hvattir til að gera margvíslegar tilraunir. Litið er á mistök sem tækifæri til að læra af reynslu.

    – Nýir miðlar og ný tækni eru nýtt á áhugaverðan og skapandi hátt. Nýjungum á því sviði er tekið opnum örmum.

    – Verk nemenda eru sýnileg og geta orðið öðrum nemendum og kennurum innblástur og hvatning. Þetta geta verið verk af öllu tagi; eðlisfræðitilraunir, ljóðaslamm, sýningar á niðurstöðum verkefnavinnu í náttúrufræði eða samfélagsgreinum, skapandi skrif, nýsköpunarverkefni, myndlistarsýningar, stuttmyndir um valin efni, hljóðupptökur, tónsmíðakeppni, matarboð undirbúið af nemendum, tískuhönnun eða keppni í matreiðslu.

    – Nemendur fást við fjölbreytilegan efnivið og eiga val um ólíkar leiðir til að vinna úr hugmyndum sínum. Þeir geta gripið til prentgagna, tökuvéla, töflureikna, hljóðvinnslu, leirgerðar, myndavéla, smíða, margs konar teikniverkfæra, lita af ýmsum gerðum, hljóðfæra, búninga og leiktjalda svo að eitthvað sé nefnt.

    – Skólinn býður upp á rými til upptöku, yndislesturs, tónlistaræfinga, upplesturs, tónleika, ígrundunar, samkomuhalds, myndlistarsýninga eða leiksýninga og gætir vel að möguleikum til að sýna og kynna verk allra nemenda.

    – Skólinn er ekki bundinn innan fjögurra veggja – náttúrulegt umhverfi, söfn og menningarstofnanir, verkstæði og atvinnufyrirtæki eru staðir þangað sem sækja má fróðleik, hugmyndir og innblástur í tengslum við ýmis viðfangsefni. Lögð er áhersla á vettvangsheimsóknir og útinám.

  • Skapandi hugsun og gagnrýnin vinnubrögð

    Þjálfa má fólk í skapandi hugsun og gagnrýnum vinnubrögðum og mikilvægt er að leggja þá áherslu í skólum landsins að sköpun gegni þar lykilhlutverki. Sköpun á að vera samtvinnuð öllu skólastarfi. Æskilegt er að skólastjórnandi, ásamt kennurum, nemendum og foreldrum leggi niður fyrir sér hvernig megi auka veg sköpunar í skólastarfinu. Til dæmis væri hægt að gera áætlun og styðjast við eftirtalin atriði:

    – Skoða hvar sköpun blómstrar í skólanum, innan námsgreina, í störfum eða kennsluaðferðum kennara, í verkefnum sem geta verið utan eiginlegrar kennslu og/eða eru unnin að frumkvæði nemenda. Hlúa ber að því sem vel er gert.

    – Setja fram leiðir og tækifæri til að auka veg sköpunar í öllum námsgreinum og á öllum sviðum skólastarfsins.

    – Draga fram hlut list- og verkgreina, huga að möguleikum sem felast í framlagi þeirra til skólastarfsins og tryggja að skólinn geri allri listkennslu þau skil sem til er ætlast.

    – Skipuleggja skólastarfið með tilliti til sveigjanleika og möguleika á fjölþættu samstarfi innan skóla og utan.

    – Skoða val og möguleika nemenda með hliðsjón af jafnréttis- og lýðræðissjónarmiðum.

    – Nýta og draga fram tækifæri til náms og kennslu sem felast í fjölbreyttri menningu innan skólans.

    – Styðja við endurmenntun og ýta undir hvers konar framtak sem nýst gæti í skapandi skólastarfi.

    – Leitast ég við að efla tilfinningu nemenda og ábyrgð á umhverfi og ásýnd skólans með því að veita þeim beinan aðgang að ákvörðunum og aðgerðum?

    – Ýti ég undir forvitni og áhuga nemenda og kennara, spurningar, hugmyndavinnu og umræður?

    – Stuðla ég að vellíðan, heilbrigði og góðum samskiptum með það fyrir augum að allir nemendur og kennarar fái notið sín í skapandi starfi?

    – Veita nemendum sem hafa sérstakan áhuga og hæfileika á ákveðnum sviðum tækifæri til þess að leggja rækt við það.

    – Nýta hvers konar tækifæri sem felast í nýrri tækni og gætu orðið til framdráttar í skapandi skólastarfi.

    – Þróa tengslanet við nærumhverfið og fá skapandi einstaklinga til samstarfs.

    – Þróa tengsl við fjarlægari staði og út fyrir landsteinana, svo sem með styrkjum og tengslanetum innan Norðurlanda og Evrópu.

Scroll to Top