Stutt fræðsla um staðalímyndir og hvernig hægt er að kveikja umræðu og brjóta upp skaðlegar staðalímyndir. Sjá hér að neðan.
Stutt fræðsla um staðalímyndir og hvernig hægt er að kveikja umræðu og brjóta upp skaðlegar staðalímyndir. Sjá hér að neðan.
Hvað er staðalímynd?
Fólk er oft skilgreint sem hluti af hópi á grundvelli þjóðmenningar, trúarbragða, uppruna eða ytri einkenna á borð við litarhátt, kyn, kynhneigð, stærð, hárgreiðslu eða klæðaburði. Með þessari skilgreiningu á hópum eru ákveðin einkenni oft tileinkuð fólki, þannig að tilteknar ímyndir tengjast vissum hópum. Þessar ímyndir eru oft ýktar og gjarnan notaðar til að draga niður viðkomandi. Staðalímyndir geta hamlað því að einstaklingurinn sé metinn á eigin forsendum og auka líkur á fordómum.
Staðalímyndir birtast víða s.s. í bókum (jafnvel kennslubókum), í samræðum, teiknimyndum og teiknimyndasögum, auglýsingum og kvikmyndum.
Dæmi um staðalímyndir:
-Stelpur eru hræddar við pöddur
-Strákar eru alltaf að slást
-Stelpur eru viðkvæmar
-Strákar eru óþekkir
-Fatlað fólk stundar ekki kynlíf
-Hommar eru kvenlegir
-Lesbíur eru grófar
-Múslimar koma illa fram við konur
-Femínistar hata karla
Hvað getur kennarinn gert?
Á sama tíma og kynjaðar staðalímyndir hafa áhrif á allt samfélagið, þá eru börn og ungmenni sérstaklega móttækileg fyrir þeim. Þau nota staðalímyndir til að vega og meta tækifæri sín í lífinu og til að finna sér stað og stöðu í samfélaginu. Í kennslustofunni felast ómetanleg tækifæri til að benda ungu fólki á hversu hamlandi og skaðandi staðalímyndir kynjanna geta verið. Eins eru rík tækifæri til að kenna börnum og ungmennum að horfa gagnrýnum augum á þau kynjuðu skilaboð sem stöðugt berast frá umhverfinu.
Rannsóknir hafa sýnt að börn horfa á staðalímyndir í afþreyingarefni og mynda sér skoðun á kynjunum út frá þeim. Í barnaefni má t.d. gjarnan sjá feður sem fjarverandi frá heimilinu, þeir eru uppteknir við annað en að sinna börnunum sínum. Þeir kyssa og knúsa börnin minna en mæðurnar en skamma þau meira. Mæður eru gjarnan sýndar sem umhyggjusamar, heimavinnandi og þjónandi. Karlar og strákar í afþreyingarefni eru oft tengdir ójöfnuði, árásargirni, valdi, athafnasemi, reiði og þvingunum en konur og stelpur eru oft tengdar við hlýju, umhyggju, óvirkni, fallegt útlit, ráðaleysi, þörf fyrir vernd og þjónustuhlutverk. Með því að hvetja nemendur til að setja spurningar við kynjaðar staðalímyndir eru þeim veitt tækifæri til að taka upplýstar ákvarðanir um framtíð sína og tækifæri óháð kyni.
Kennarar eru í þeirri stöðu að þeir geta rætt staðalímyndir við nemendur sína, gefið þeim dæmi og hvatt þá til að horfa og ræða með gagnrýnum augum á þá ímynd sem sett hefur verið fram. Þetta getur kennari gert með því að benda á dæmi sem koma fram í kennsluefni sem verið er að vinna með eða með því að grípa inn í umræður nemenda þegar dæmi um kynjaðar staðalímyndir koma upp. Kennari þarf ekki að vera búinn að grandskoða kennsluefnið fyrirfram með staðalímyndir til hliðsjónar heldur þarf hann að vera tilbúinn til að varpa fram spurningum þegar hann kemur auga á kynjaðar staðalímyndir í kennsluefninu. Hann getur einnig þjálfað nemendur í að gagnrýna kennsluefni t.d. með því að bera saman texta eftir konur og karla eða bera saman birtingarmyndir kvenna og karla í námsbókum. Kennarinn þarf að vera á tánum varðandi samræður og tal nemenda og vera tilbúinn til að grípa inn í umræður þegar við á. Setningar eins og „Þú sparkar eins og stelpa“, „Ertu hommi?“ eða „Strákar gráta ekki“ geta haft skaðleg áhrif og mikilvægt er að kennari grípi inní þegar hann heyrir slíku slengt fram.
Börn segja oft ýmislegt án þess að ætla að særa eða móðga neinn og átta sig ekki á því að orð þeirra hafi áhrif. Mikilvægt er að nemendur fái tækifæri til umræðu um af hverju svona setningar eru slæmar og hvaða áhrif þær geta haft á mótun viðhorfa okkar m.a. til kynjanna.
Hvað get ég gert sem kennari til að stuðla að kynjajafnrétti og til að brjóta upp skaðandi staðalímyndir?
Ögrað hefðbundnum kynhlutverkum í samræðum við nemendur, segja sögur af t.d. konum sem starfa sem sjómenn og körlum sem starfa sem hjúkrunarfræðingar. Þegar þú heyrir eða sérð dæmi um hefðbundnar kynjaðar staðalímyndir notaðu tækifærið og ræddu við börnin um af hverju þetta er svona og hvað þeim finnst. Ræddu við nemendur um að ekki allir upplifi sig sem stelpur eða stráka Vertu meðvituð/aður um að kynja ekki að óþörfu, ekki tala um stelpur og stráka, stelpudót og strákadót, stelpuföt og strákaföt… talaðu frekar um börn, barnaleikföng, barnaföt o.s.frv.