Félagsfærni, Heilbrigði, Sjálfsefling, Sköpun

“Mér finnst það bara verða grófara og grófara”

Upplifun ungra karla á kynlífsmenningu framhaldsskólanema.  

Lesa rannsóknina.

Kynlífsmenning innan félagslífs framhaldsskólanema hefur breyst hratt á undanförnum árum. Með öflugri internet-tengingu og tilkomu samfélagsmiðla hefur umræða um kynferðismál breyst og er hún óþvingaðri en áður. Á sama tíma hefur aðgangur að klámi aldrei verið eins óheftur og margt sem bendir til þess að klámvæðingin hafi þónokkur áhrif á samskipti kynjanna. Í þessari rannsókn er leitast við að varpa ljósi á upplifun ungra karla á þeirri kynlífsmenningu sem þeir búa við í dag. Byggt er á samskonar rannsókn frá 2015 sem sýndi upplifun ungra kvenna á kynlífsmenningunni.

Tilgangur rannsóknarinnar er að rýna í þá þætti sem helst hafa áhrif á hugmyndir ungra karla um kynlíf, hvort þeir upplifa einhverskonar kynferðislegan þrýsting og þá hvernig hann birtist. Einnig er skoðað hvernig viðmælendur upplifa jafnrétti í kynlífi og hver upplifun þeirra er af þeirri kynfræðslu sem þeir hafa fengið.

Rannsóknin er byggð á eigindlegum rannsóknaraðferðum þar sem tekin voru hálfopin viðtöl við tólf unga karla, tvö rýnihópaviðtöl og sex einstaklingsviðtöl. Viðmælendur koma úr mismunandi framhaldsskólum, bæði frá höfuðborgarsvæðinu og af landsbyggðinni.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að félagsþrýstingur hafi töluverð áhrif á kynlífsmenningu ungra karla ásamt klámneyslu sem einnig hefur mótandi áhrif. Ungir karlar telja ekki sömu reglur gilda um kynhegðun karla og kvenna og eru sammála um að strákum leyfist töluvert meira í kynferðislegum málefnum. Viðmælendur telja einnig að félagslegum þáttum kynfræðslu sé ekki nægilega vel sinnt í skólakerfinu. Í skýrslunni má sjá samanburð á niðurstöðum beggja rannsókna.

Tenging við menntastefnu Félagsfærni, Heilbrigði, Sjálfsefling, Sköpun
Gerð efnis Fræðilegt, Ítarefni
Markhópur Starfsfólk og starfsþróun.
Viðfangsefni Kynheilbrigði, andleg og félagsleg vellíðan, kynfræðsla, jafnrétti, samskipti, sjálfsmynd, sjálfstraust, líkamsímynd og líkamsvirðing.
Scroll to Top
Scroll to Top