Læsi

Sleipnir á skólabókasafninu

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, í samstarfi við Félag fagfólks á skólabókasöfnum, hefur útbúið nemendapakka fyrir grunnskóla. Efnið er ætlað skólabókasöfnum og/eða kennurum sem geta nýtt það í kennslu og almenna lestrarhvatningu fyrir börn. Skólabókasöfn í Reykjavík fá bækurnar Vetrarævintýri Sleipnis og Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð gefins frá Bókmenntaborginni og var bókunum dreift í skólana í mars 2019.

Vetrarævintýri Sleipnis eftir Gerði Kristnýju er ætluð fyrir 1. og 2. bekk. Áður hafa börn í borginni kynnst þessu ævintýri á lestrarstundum fyrir leikskólabörn á Borgarbókasafninu, en nú geta þau sjálf fengið að lesa bókina. Síðan hefur rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson skrifað nýtt ævintýri um Sleipni, Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð, sem er aðeins aðgengilegt til láns í gegnum skólabókasöfn. Bókin hentar börnum frá elsta hópi yngsta stigs og uppúr.

Tenging við menntastefnu Læsi
Gerð efnis Kveikjur, Verkefni
Markhópur Börn 6-9 ára og starfsfólk
Viðfangsefni Barnamenning, Lestur og bókmenntir, Læsi og samskipti
  • HVER ER SLEIPNIR?

    Í goðsögunni er Sleipnir afkvæmi Loka að móðerni og jötnahestsins Svaðilfara að faðerni. Loki brá sér í líki hryssu til að lokka Svaðilfara burt frá Ásgarði og er hinn áttfætti Sleipnir afrakstur þessa ævintýris. Sleipnir þýðir sá sem rennur hratt áfram. Hann er hestur Óðins og sagður allra hesta bestur og hefur hann rúnir ristar á tennur sér.

  • Verkefni og litablöð fyrir 1. bekk

  • LESTRARFÉLAGINN

    Lestrarfélaginn Sleipnir hefur slagorð sitt flúrað á sig: „Komdu með á hugarflug“. Hann er framhleypinn og ögrandi húmoristi sem er ófeiminn við að sýna hvað í honum býr, en á sama tíma ljóðrænn og yfir honum er ævintýraljómi. Sem lestrarfélagi barnanna stendur Sleipnir að ýmsum lestarhvetjandi verkefnum á vegum Bókmenntaborgarinnar fyrir yngri kynslóðirnar. Hans fyrsta verkefni var að bjóða börnum í ratleik í kringum Reykjavíkurtjörn á Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2012. Þar gátu börn og foreldar leikið sér að því að leysa léttar þrautir tengdar textum úr barnabókum. Sleipnir bauð einnig börnum til sín í Sleipnisstofu í Ævintýrahöllinni sem var í Iðnó á meðan hátíðin stóð yfir. Síðan hefur Sleipnir hitt fjölda barna á öllum aldri og árið 2015 gaf Bókmenntaborgin út bókina Vetrarævintýri Sleipnis eftir Gerði Kristnýju og Gunnar Karlsson, sem ætluð er börnum á leikskólaaldri, og 2019 bókina Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð eftir Ævar Þór Benediktsson og Gunnar Karlsson, sem ætluð er grunnskólabörnum á miðstigi. Á sumrin minnir Sleipnir börn á að lesa sér til ánægju og hvetur þau til að taka þátt í sumarlestri Borgarbókasafns Reykjavíkur. Á veturna hitta leikskólabörn hann í sögustundum og leikskólar geta nýtt sér hugmyndabanka sem fylgir bókinni sem Gerður Kristný og Gunnar unnu fyrir Bókmenntaborgina. Lestrarfélaginn Sleipnir er skapaður af Gunnari Karlssyni myndlistarmanni og Þórunn María Jónsdóttir búningahönnuður blés lífi í hann með stórkostlegum búningi.

Scroll to Top
Scroll to Top