Læsi

Sögustund með Sleipni

Lestrarstund með Sleipni

Sleipnir – Komdu með á hugarflug!

Frá 2016 hefur Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO boðið upp á sögustundir með Sleipni í samvinnu við Borgarbókasafnið með það að markmiði að öll leikskólabörn í Reykjavík eigi þess kost að hitta Sleipni áður en þau hefja grunnskólanám og kynnist lestrargleðinni.

Sagan Vetrarævintýri Sleipnis eftir Gerði Kristnýju og Gunnar Karlsson er lesin upp ásamt fleiri sögum. Að lokinni lestrarstund með Sleipni: Börnin fá Sleipnisbókamerki Leikskólakennarar fá Vetrarævintýri Sleipnis með heim ásamt hugmyndabanka Sleipnis Foreldrar / forráðamenn fá skilaboð um að barnið hafi hitt Sleipni og þau eru hvött til að lesa fyrir börnin.

Tenging við menntastefnu Læsi
Gerð efnis Kveikjur, Verkefni
Markhópur Börn 3-6 ára
Viðfangsefni Barnamenning, Lestur og bókmenntir, Læsi og samskipti
 • KOMDU MEÐ Á HUGARFLUG

  Bókmenntaborgin hefur gert áttfætta goðsagnahestinn Sleipni að sérlegum lestrarfélaga sínum og allra barna. Sleipnir er þeim töfrum gæddur að geta flogið á milli heima og er þannig táknmynd ferðalagsins og hugarflugsins sem bóklestur býður okkur upp á. Sleipnir er því enginn venjulegur hestur, hann er í raun tákn skáldskaparins sjálfs, hinn norræni skáldfákur.

  Í nafni Sleipnis tekur Bókmenntaborgin þátt í verkefnum sem snúa að lestrarhvatningu og skapandi starfi barna og ungmenna.

 • HVER ER SLEIPNIR?

  Í goðsögunni er Sleipnir afkvæmi Loka að móðerni og jötnahestsins Svaðilfara að faðerni. Loki brá sér í líki hryssu til að lokka Svaðilfara burt frá Ásgarði og er hinn áttfætti Sleipnir afrakstur þessa ævintýris. Sleipnir þýðir sá sem rennur hratt áfram. Hann er hestur Óðins og sagður allra hesta bestur og hefur hann rúnir ristar á tennur sér.

 • LESTRARFÉLAGINN

  Lestrarfélaginn Sleipnir hefur slagorð sitt flúrað á sig: „Komdu með á hugarflug“. Hann er framhleypinn og ögrandi húmoristi sem er ófeiminn við að sýna hvað í honum býr, en á sama tíma ljóðrænn og yfir honum er ævintýraljómi.

  Sem lestrarfélagi barnanna stendur Sleipnir að ýmsum lestarhvetjandi verkefnum á vegum Bókmenntaborgarinnar fyrir yngri kynslóðirnar. Hans fyrsta verkefni var að bjóða börnum í ratleik í kringum Reykjavíkurtjörn á Barnamenningarhátíð í Reykjavík 2012. Þar gátu börn og foreldar leikið sér að því að leysa léttar þrautir tengdar textum úr barnabókum. Sleipnir bauð einnig börnum til sín í Sleipnisstofu í Ævintýrahöllinni sem var í Iðnó á meðan hátíðin stóð yfir. Síðan hefur Sleipnir hitt fjölda barna á öllum aldri og árið 2015 gaf Bókmenntaborgin út bókina Vetrarævintýri Sleipnis eftir Gerði Kristnýju og Gunnar Karlsson, sem ætluð er börnum á leikskólaaldri, og 2019 bókina Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð eftir Ævar Þór Benediktsson og Gunnar Karlsson, sem ætluð er grunnskólabörnum á miðstigi.

  Á sumrin minnir Sleipnir börn á að lesa sér til ánægju og hvetur þau til að taka þátt í sumarlestri Borgarbókasafns Reykjavíkur. Á veturna hitta leikskólabörn hann í sögustundum og leikskólar geta nýtt sér hugmyndabanka sem fylgir bókinni sem Gerður Kristný og Gunnar unnu fyrir Bókmenntaborgina.

  Lestrarfélaginn Sleipnir er skapaður af Gunnari Karlssyni myndlistarmanni og Þórunn María Jónsdóttir búningahönnuður blés lífi í hann með stórkostlegum búningi.

Scroll to Top
Scroll to Top