Læsi, Sjálfsefling, Sköpun

Tæknisnilld og sköpunargleði

Markmið þessa verkefnis var að valdefla nemendur í gegnum tækni og sköpun. Verkefnið sem unnið var í Foldaskóla fól í sér að efla starfsmenn í vinnu með upplýsingatækni og fjölbreyttar kennsluaðferðir með það í huga að takast á við þær áskoranir sem felast í breyttu samfélagi og tæknibreytingum. Verkefnið fékk styrk úr þróunar- og nýsköpunarsjóði skóla- og frístundaráðs vegna innleiðingar menntastefnu Reykjavíkur skólaárið 2019-2020.

Unnið var að tvenns slags verkefnum; annars vegar Ljóðaupplestur á myndbandi og hins vegar verkefni um Pláneturnar.

Tenging við menntastefnu Læsi, Sjálfsefling, Sköpun
Gerð efnis Verkefni
Markhópur 6-16 ára og starfsfólk.
Viðfangsefni Sköpun, ljóð, margmiðlun, menning, upplestur, íslenska, læsi, náttúrufræði, geimurinn, plánetur, sólkerfið
 • Ljóðaupplestur

  Nemendur velja sér ljóð til að lesa upp. Þeir finna einnig mynd eða myndband sem passar við ljóðið. Nemendur lesa ljóðið upp fyrir framan grænskjá, nota myndina eða myndbandið sem þeir völdu sem bakgrunn og búa þannig til skemmtilegt ljóðamyndband.
  Hjá yngri nemendum getur kennari séð um að taka upp og klippa myndbandið til en hjá þeim eldri geta þeir gert það sjálf. Bendi á flott kennslumyndbönd í Green Screen í iMovie frá Mixtúru til stuðnings.

 • Pláneturnar

  Þetta verkefni hentar í tengslum við nám um geiminn og pláneturnar. Nemendur vinna tveir til þrír saman þar sem hver hópur fær úthlutað einni plánetu. Nemendur fræðast um sína plánetu og búa til skriflega kynningu um hana. Nemendur skiptast á að lesa upp kynninguna fyrir framan grænskjá og finna mynd eða myndband af plánetunni til að nota sem bakgrunn. Hjá yngri nemendum getur kennari séð um að taka upp og klippa myndbandið til en hjá þeim elstu geta þeir gert það sjálfir. Bendi á flott kennslumyndbönd í Green Screen í iMovie frá Mixtúru til stuðnings.

 • Nánari útlitun á verkefninu Tæknisnilld og sköpunargleði - valdefling nemenda í gegnum tækni og sköpun

  Unnið hefur verið að því að útbúa námsumhverfi í Foldaskóla sem hvetur til fjölbreytni og sköpunar. T.d. hefur verið komið upp aðstöðu til að taka upp myndbönd með “green-screen” tækni sem var mjög áhugahvetjandi fyrir stóran nemendahóp og hefur verið vel nýtt í mismunandi verkefnavinnu t.d. við ljóðaupplestur og stuttmyndagerð úr Íslendingasögum. Meðal annarra skapandi tækniverkefna sem voru áberandi í vetur eru hreyfimyndagerð með stop-motion tækni og hlaðvarpsgerð bæði í tungumálanámi og samfélagfræði og vefsíðugerð. Skólinn keypti einnig forritunarvélmennin Dash og Dot sem notuð hafa verið til að kynna forritun fyrir nemendum á yngsta- og miðstigi.

  Foldaskóli hefur einnig innleitt Chromebook, G-Suit lausnum og Google Classroom. Kennsluráðgjafi hefur verið leiðandi í að kynna og aðstoða bæði kennara og nemendur við að nota lausnirnar og tækin á markvissan hátt. Þegar skólastarf var skert vegna COVID varð mikilvægi góðrar tækniþekkingar og aðstöðu enn ljósara. Það kom það sér vel að innleiðing á Google námsumhverfinu var hafin því það gerði auðveldara að setja fyrir og skila verkefnum á rafrænu formi og eiga í samskiptum við nemendur. Áhugi kennara á notkun G-Suit lausnanna jókst því mikið og framfarir bæði hjá kennurum og nemendum urðu miklar á stuttum tíma.
  Haldið verður áfram með þessa þróun næsta vetur og er markmiðið að næsta vor geti allir kennarar á unglingastigi notað Google lausnir í sinni kennslu og allir nemendur við verkefnavinnu.

  Vegna óvenjulegra aðstæðna veturinn 2019-2020 gafst ekki tími til að leggja rafræna könnun fyrir foreldra og nemendur en rætt hefur verið við kennara um reynslu þeirra af starfinu. Samkvæmt þeim samtölum er almennur samhljómur um að verkefnið hafi verið jákvæð innspýting í starf skólans. Kennarar eru með meira sjálfstraust í tækninni og þekkja betur þá möguleika sem eru í boði. Þeim finnst einnig gott að hafa aðgang að ráðgjafa sem aðstoðar við tæknimál og treysta sér betur til að nýta tæknilausnir, hvort sem er við kennslu eða verkefnavinnu, hafandi aðstoð á staðnum. Nemendur hafa verið að skila verkefnum á fjölbreyttara formi en áður s.s. á formi myndbanda, vefsíðna, hlaðvarpa og rafrænna veggspjalda. Það er bæði vegna þess að boðið hefur verið upp á fleiri valkosti en einnig vegna þess að nemendur hafa verið að fá meiri þjálfun í mismunandi tækni og vita líkt og kennarar að þeir geta leitað til kennsluráðgjafa til að fá aðstoð við tæknilegar hliðar verkefnanna.

  Í heildina hefur verkefnið veitt nemendum Foldaskóla fjölbreyttari tækifæri til sköpunar og tjáningar. Notkun á tækninni og fjölbreyttum verkefnum er að valdefla nemendur sem geta nú í fleiri tilvikum notað sína styrkleika í verkefnavinnu en þegar einsleitari valkostir voru í boði eða þekking þeirra á tækninni minni.

Scroll to Top
Scroll to Top