Læsi, Sjálfsefling

Vettvangsferðir leikskólabarna

Markmiðið með vettvangsferðum er að börnin kynnist sínu nánasta umhverfi og víkki sjóndeildarhringinn smátt og smátt. Jafnframt að þau tengist því samfélagi sem þau búa í og kynnist menningu og listum. Sjá hér að neðan hvernig standa má að vettvangsferð fyrir leikskólabörn.

Tenging við menntastefnu Læsi, Sjálfsefling
Gerð efnis Verkefni
Markhópur 1 - 6 ára leikskólabörn.
Viðfangsefni Læsi, íslenska sem annað mál, samskipti, sköpun og menning,
  • Nærumhverfið – hvað sjáum við?
    • Merkingar í umhverfinu
    • Mismunandi byggingar
    • Gróður – opin svæði – leikvelli
    • Umferðaröryggi
    • Bókasafn • Aðrir skólar
    • Búðir • …

    Menning og listir – Hvað er í boði? Hvernig er hægt að nýta það?
    • Umferðaröryggi – strætó – hópferðabíll
    • Listasöfn – listagarðar
    • Minjasöfn
    • Leikhús – tónlistahús
    • …

     

  • Könnunaraðferðin
    Könnunaraðferðin er ákveðin námsaðferð þar sem kennarinn leiðbeinir börnunum í gegnum rannsóknarvinnu sína. Það viðfangsefni sem er tekið fyrir byggir á reynslu barnanna og það er áhugi og forvitni þeirra sem ræður ferðinni. Þannig veit enginn hvert rannsóknarvinnan leiðir hópinn.

    Könnunaraðferðin er eins og góða saga; með upphaf, miðju og endi. Þannig er ferlinu skipt upp í þrjú stig:

    1. Stig – að hefjast handa.
    Lykilatriðið hér er að velja viðfangsefni sem byggir á sameiginlegri reynslu barnanna, hafa hugflæði og setja það upp í þekkingarvef. Út frá þessu koma svo vangaveltur frá börnunum um það hvað þau vilja vita meira.

    2. Stig – að rannsaka, skoða og kanna.
    Hér er í raun aðalvinnan og rannsóknin. Farið er í vettvangsferðir til að fá tækifæri til að upplifa viðfangsefnið í raunverulegum aðstæðum. Síðan vinna börnin úr ferðinni, leita sér jafnvel nánari upplýsinga í bókum, á vefnum eða með því að tala við einhvern sem er fróður um málið. Bætt er í þekkingarvefinn jafnóðum og þekking bætist við. Börnin rannsaka, teikna athugasemdir, búa til fyrirmyndir (líkön), gera athuganir og skrá niðurstöður. Þau kanna, spá, fjalla um og leika nýju upplifun sína.

    3. Stig – að meta, túlka og miðla.
    Hérna skoðar kennarinn með börnunum hvað þau hafa lært í gegnum þessa rannsóknarvinnu. Síðan ákveða börnin hvort þau vilja deila þessari reynslu sinni með öðrum, eins og til dæmis með því að hafa sýningu fyrir foreldrana. Mikilvægt er að börnin fái tækifæri til að skýra nánar frá því hvað þau hafa lært í gegnum allt ferlið, svo það verði merkingabært fyrir þeim. Þannig eiga þau auðveldara með að sameina og samþætta upplýsingar sem þau fengu í gegnum mismunandi reynslu af viðfangsefninu. Á þessu stigi er ákvarðanataka barnanna jafn mikilvæg og á hinum tveim stigunum, hérna þurfa þau að taka ákvörðun um það hvað þau lærðu í raun, hvernig og hvað af reynslu sinni þau vilja koma á framfæri (Helm and Katz, 2001).

     

  • Tillaga að skipulagi við undirbúning ferða á vegum leikskóla 
    • Einn starfsmaður er ábyrgðarmaður í ferðinni.
    • Ábyrgðarmaður hefur lista yfir öll þau börn sem eru í ferðinni og upplýsingar um aðstandendur þeirra (t.d. afrit af grunnupplýsingum um barn vegna slysa og bráðaveikinda.
    • Ábyrgðarmaður ber ábyrgð á að ferðasjúkrakassi/ferðasjúkrabakpoki sé tekinn með í ferðina.
    • Ábyrgðarmaður þarf að vita nákvæma staðsetningu hópsins hverju sinni ef upp koma veikindi eða slys til geta hringt í Neyðarlínuna 112 eða foreldra.
    • Mikilvægt er að farsími sé með í för.
    • Tryggja þarf að fjöldi starfsfólks sem fer með sé nægilegur.
    • Tryggja þarf eftirlit með öllum börnum. Góð leið til þess er að hver starfsmaður sé ábyrgur fyrir ákveðnum hópi barna.
    • Starfsmenn sem bera ábyrgð á ákveðnum börnum í ferðinni láta ábyrgðarmann vita að öll börnin séu til staðar áður en lagt er af stað í upphafi ferðar og á áningarstöðum.
    • Mikilvægt er að börnin beri einhverskonar auðkenni, t.d. endurskinsvesti, þannig að auðveldara sé að fylgjast með hópnum.
    • Huga þarf að því að börn séu rétt búin fyrir ferðina miðað við aðstæður og lengd ferðar.
    • Huga þarf að sólarvörn fyrir börnin.
    • Mikilvægt er að halda börnunum saman í hóp og tryggja að þau verði aldrei viðskila við starfsfólk leikskóla eða foreldra/forsjáraðila.
    • Gæta þarf að göngustígum, þar getur verið margvísleg umferð, bæði reiðhjóla og rafknúinna ökutækja sem og gangandi vegfarenda.

Scroll to Top
Scroll to Top