Vinaliðaverkefnið gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í leikjum og annarri afþreyingu í frímínútunum, afstýra einelti á skólalóðinni og skapa góðan skólaanda.
Vinaliðaverkefnið
-
Nemendur í 4. til 6. bekk velja einstaklinga úr bekkjunum sem fá hlutverk vinaliða og þeir hafa svo umsjón með því að koma leikjum og afþreyingu í gang og taka til eftir leikina.
Nemandi sem er valinn til að gegna hlutverki vinaliða starfar í hálft ár í senn. Hann vinnur að verkefninu í löngu frímínútum skólans, tvo daga í viku, mánudag og miðvikudag eða þriðjudag og fimmtudag. Vinaliðinn mætir einnig á fundi þar sem starfið í frímínútum er skipulagt. Það er ekkert sem segir að vinaliði geti ekki verið valinn aftur, hópurinn tilnefnir þá nemendur sem honum finnst passa í starfið hverju sinni.
Við val á vinaliðum eru nemendur skólans sérstaklega beðnir um að tilnefna einstaklinga sem þeim finnst vera vingjarnlegir og sýni öðrum nemendum virðingu. Ef vafi leikur á heilindum nemandans, getur umsjónarkennari frestað starfi hans sem vinaliða til næsta tímabils. Ef skólar óska eftir því að taka þátt í Vinaliðaverkefninu og fá þjálfun og fræðslu fyrir nemendur sína þá má nálgast frekari upplýsingar og kostnað á heimasíðu verkefnisins.