Læsi, Sköpun

Vísindavaka

Vísindavaka er nemendamiðað hálf stýrt leitarnám þar sem nemendur í 6. til 10. bekk læra um ferli vísinda með því að búa til eigin tilraun, gera samanburðartilraun og kanna áhrif breyta.

Í verkefninu Vísindavöku hanna nemendur samanburðartilraun og læra um breytur með því að skilgreina þær í athugunum sínum. Með því að safna gögnum og endurtaka tilraunir, þjálfast nemendur í mælingum og að greina upplýsingar. Þó að ferill verkefnisins sé lærdómsríkur, læra nemendur einnig mikið af því að standa fyrir framan aðra nemendur (helst yngri nemendur) á Vísindavökunni sjálfri.

Vefur vísindavöku verkefnisins hjá Náttúrutorgi.

Tenging við menntastefnu Læsi, Sköpun
Gerð efnis Ítarefni, Kveikjur, Myndbönd, Vefsvæði, Verkefni
Markhópur Börn frá 9 -16 ára.
Viðfangsefni Leiðsagnarmat, Læsi og samskipti, Nýsköpun, Samvinna, Sjálfbærni og vísindi, Skapandi ferli, Talað mál, hlustun og áhorf
  • Hvað er vísindavaka?

  • Nánar um vísindavöku

    Vísindavaka þjálfar náttúrulæsi og eykur áhuga nemenda á vísindum. Nemendur læra að fylgja eftir rannsóknarferli, búa til rannsóknarspurningu og meta eigin þekkingu á viðfangsefninu og finna leiðir til að safna gögnum sem gætu veitt upplýsingar sem svara spurningu þeirra. Slík vinna þjálfar greinandi og skapandi hugsun. Í lok verkefnisins fer fram hin eiginlega Vísindavaka þar sem nemendahópur kynnir og sýnir tilraunir sínar og stendur fyrir svörum áhorfenda.

    Ferli vísinda eru þau vinnubrögð og aðferðir sem vísindafólk notar til að rannsaka og öðlast nýja þekkingu um lífið og tilveruna. Hvað sem vísindafólk er að kljást við, þá notar það ákveðnar aðferðir til að komast til botns í málinu. Áður fyrr var talað um vísindalega aðferð, en þar sem vísindafólk fylgir ekki einni ákveðinni aðferð er frekar talað um ferli vísinda í dag.

    Í upphafi þarf að ákveða hvað skal skoða. Án rannsóknarspurningar er ekki hægt að leita að svari. Þegar okkur langar að kanna ótroðnar slóðir eða læra eitthvað nýtt þá er ágætt að byrja á því að búa til rannsóknarspurningu eins og „Hvað henda nemendur 7. bekkjar mörgum kílóum af mat í ruslið í hádeginu?“ eða „Hefur gostegund áhrif á hversu hátt gos og mentos gýs?“ eða „Er hægt að halda uppblásinni blöðru yfir kertaloga, án þess að hún springi?“, „Hvernig getum við læknað Ebólu?“ eða ,,Hvað gerist ef þú borðar óvart hluta af spöngunum þínum?”.

    Rannsóknarspurning þarf að vera gerð á þann hátt að hægt sé að svara henni með einhvers konar mælingum. Það þarf sem sagt að vera hægt að svara henni. Eftir að við höfum búið til spurningu sem við viljum kanna nánar, þá er komið að því að velta því fyrir okkur, hvað við vitum um viðfangsefnið og giska á hvert sé svarið við spurningunni okkar. Þetta heitir tilgáta. Eftir að við höfum gert tilgátu er svo komið að gagnasöfnun eða athugun. Hægt er að safna upplýsingum með því að mæla eitthvað, safna svörum, upplýsingum og beinum tilraunum. T.d. með því að mæla massa matarafganga, prófa sykurgos og mentos og síðan sykurlaust gos og mentos og mæla hæð gosbununar, eða að prófa að setja uppblásna blöðru yfir kertaloga, og jafnvel uppblásnablöðru með smá vatni í yfir kertaloga. Það er mikilvægt að þið séuð meðvituð um hvaða breytu þið eruð að kanna í athuguninni, svo að við vitum nákvæmlega hvað olli breytingunni. Með því að endurtaka svo tilraunina er hægt að sjá hvað hefur virkilega áhrif. Í lokin veltum við fyrir okkur því sem gerðist, hverju getur það tengst, af hverju gerðist það? Mikilvægt er að við séum meðvituð um hvað við erum að kanna og af hverju.

Scroll to Top