Leikskólar
Kannanir og skimanir
Foreldrakannanir
Foreldrakannanir skóla- og frístundasviðs eru gerðar meðal foreldra barna í leikskólum Reykjavíkurborgar annað hvert ár. Könnunin er send foreldrum allra barna í upphafi árs, niðurstöður liggja fyrir á vormánuðum (mars/apríl).
Starfsmannakannanir
Starfsmannakönnun Reykjavíkurborgar er gerð meðal allra starfsmanna borgarinnar. Allir starfsmenn fá senda vefslóð í tölvupósti í upphafi hvers ár og hver starfsstaður fær sendar niðurstöður, í heildarsamanburði við sambærilega starfsstaði, sem og borgina í heild sinni.
Málþroskaskimanir, val leikskóla að nota
Málþroskaskimanir fyrir börn í leikskóla eru nokkrar, t.d. EFI–2 sem er málþroskaskimun á málskilningi og máltjáningu barna sem eru á 4. ári. Hljóm-2 sem er hljóð- og málvitundarskimun, notað til að finna þau börn sem eru með frávik í málþroska. Orðaskil sem er ætlað að mæla orðaforða barna og vald þeirra á beygingarkerfi og setningargerð frá 18 mánaða til 3 ára. TRAS, sem er skráningartæki, notað til þess að skrá og fylgjast með málþroska 2-5 ára barna. Misjafnt er hvaða málþroskaskimanir leikskólar nota, en það er val leikskólans. Frekari upplýsingar um hverja málþroskaskimun má lesa hér fyrir neðan
Atferlisíhlutun
Færnimatslisti/atferlisgreining, meðal annars við kennslu barna með frávik. Foreldrar og starfsmenn leikskóla fylla út listann og þeir eru nýttir til að vinna að því að barn öðlist sem mest sjálfstæði, geti notið hæfileika sinn, átt gefandi samskipti við aðra og lifað sem innihaldsríku lífi.
Stuðningsefni
Námskeið um innra mat
Námskeið um innra mat í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum með talglærum. Talglærurnar vann Sigríður Sigurðardóttir fyrir Reykjavíkurborg árið 2018 en Sigríður er höfundur bæklings um innra mat sem unnið var fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneyti árið 2016.
Námskeiðið/talglærurnar skiptast í tvo hluta:
• Fyrri hluti: Innra mat og mikilvægi þess
• Seinni hluti: Framkvæmd innra mats
Námskeiðið er gagnlegt þeim sem vilja bæta gæði og árangur skóla- og/eða frístundastarfs með markvissu innra mati. Fyrri hluti námskeiðsins er gagnlegt til að átta sig á hvað innra mat er og mikilvægi þess er. Seinni hlutinn fjallar um framkvæmd innra mats, frá skipulagningu til framkvæmdar og eftirfylgni umbóta.
Námskeiðið getur bæði gagnast þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í innra mati og þeim sem lengra eru komnir.
Gátlistar menntastefnu
Gátlistar menntastefnu er verkfæri fyrir starfsfólk leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs til að meta grundvallarþætti Menntastefnu Reykjavíkurborgar; félagsfærni, sjálfsefling, læsi, sköpun og heilbrigði. Auk þess eru gátlistar um innra mat og mannauð sem styðja vel við áhersluþættina fimm. Mælt er með að starfsstaðir skóla– og frístundasviðs Reykjavíkurborgar nýti sér rafræna gátlista menntastefnunnar, m.a. til að efla starfið og sjá þróun en auk þess er hægt er að prenta út pdf skjal og nýta til umræðu á starfsstöðvum.
Gæðaviðmið fyrir leikskólastarf
Gæðaviðmið fyrir leikskólastarf hafa verið notuð við ytra mat á vegum Reykjavíkurborgar og Menntamálastofnun. Ytra mat er liður í að styðja og efla leikskólastarf og kemur til viðbótar innra mati skólanna. Leikskólar geta þó einnig nýtt viðmiðin til að vísa leiðina í ákveðnum þáttum, en kaflar viðmiðanna eru fimm; Stjórnun, Uppeldi og menntastarf, Mannauður, Leikskólabragur og Innra mat.
Bæklingur um innra mat
Leiðbeiningabæklingur um innra mat í leikskólum. Bæklingurinn er fyrst og fremst skrifaður fyrir leikskólakennara, aðra starfsmenn og stjórnendur í leikskólum en getur einnig gagnast öllum þeim sem koma að skipulagi og framkvæmd matsins, t.d. fulltrúum foreldra í matsteymum. Bæklingurinn er skrifaður með það í huga að hann nýtist við framkvæmd innra mats á öllum stigum þess, frá skipulagningu til framkvæmdar og eftirfylgni umbóta. Hann getur bæði gagnast þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í innra mati og þeim sem lengra eru komnir.
Umbótaáætlun, form fyrir leikskóla
Umbótaáætlunarform sem hægt er að nýta þegar leikskólar vilja skrásetja helstu þætti er varðar umbótaþætti sem vinna á að. Formið er sett upp út frá sömu köflum og settir hafa verið fram í gæðaviðmiðum ytra mats fyrir leikskóla. Hægt er að breyta áhersluþáttunum eftir því sem hentar.
Eyðublað vegna upplýsinga milli leik- og grunnskóla
Eyðublað til útfyllinga vegna upplýsinga um barn sem fer úr leikskóla í grunnskóla sem leikskólastjóri og/eða deildarstjóri/sérkennslustjóri leikskóla fyllir út og foreldrar/forsjáraðilar þurfa að samþykkja. Við flutning barns milli leikskóla og úr leikskóla í grunnskóla skal leikskólastjóri sjá til þess að nauðsynlegar persónuupplýsingar um barnið flytjist með tryggum og öruggum hætti til viðtökuskóla. Við meðferð og öflun persónuupplýsinga skal þess gætt að öll meðferð sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga samkvæmt fyrirmælum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Eftirfarandi upplýsingar skal því ekki fylla út nema þær séu taldar nauðsynlegar fyrir skólastarfið og velferð barnsins.
Hæfnirammar í íslensku fyrir fjöltyngd börn í leikskóla
Hæfnirömmum í íslensku fyrir fjöltyngd börn er fyrst og fremst ætlað að vera uppspretta fjölbreytilegs leikskólastarfs sem styður við framfarir barna í íslensku. Þeir skiptast í fjögur hæfnisvið: Tjáningarfærni, Hlustunarskilning, Hljóðkerfisvitund og Læsi. Hæfnirammarnir gefa ákveðið viðmið um árangur málörvunar í íslensku í leikskólastarfi með börnum sem eiga annað móðurmál en íslensku. Þeim er ekki ætlað að vera grunnur að beinni kennslu í íslensku heldur uppspretta fjölbreytilegs leikskólastarfs.
Fylgst með líðan
Hvers vegna áhersla á líðan?
Líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði og vellíðan er mikilvæg forsenda formlegs og óformlegs náms og góðs námsárangurs. Menntun er að sama skapi mikilvæg forsenda heilbrigðis og vellíðunar. Börn og unglingar verja stórum hluta dagsins í skóla- og frístundastarfi og því þarf allt slíkt starf að stuðla að vellíðan þeirra, t.d. með því að skapa jákvæðan skólabrag/staðarbrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum.
Heilsueflandi leikskóli
Ein af bestu leiðunum til að vinna markvisst að vellíðan og gleði í skólastarfi að er nýta nálgun Embættis landlæknis að Heilsueflandi leikskóla. Nálguninni er ætlað að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi og skólabrag sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan bæði barna og starfsfólks í samvinnu við fjölskyldur og nærsamfélag. Lagt er upp með áhersluþættina geðrækt, mataræði, tannheilsu, hreyfingu, öryggi, fjölskyldu, nærsamfélag og starfsfólk og fá skólarnir aðgang að gátlistum á rafrænu formi sem hjálpa til við stöðumat og styðja við innleiðingu heilsueflandi skólastarfs. Heilsueflandi leikskóli er hluti af Heilsueflandi samfélagi og Lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar.
Líðan í mælikvörðum og leiðarljósum skóla- og frístundastarfs
Hér má líta lista yfir valda mælikvarða úr hinum ýmsu könnunum sem snúa með einum eða öðrum hætti að líðan barna og unglinga. Tilgreint er hvaðan hver og einn mælikvarði er fenginn auk þess sem hann er ýmist tengdur við áhersluþætti eða leiðarljós menntastefnu Reykjavíkurborgar. Listinn er tilvalið verkfæri fyrir þá starfsstaði skóla- og frístundasviðs sem vilja fylgjast markvisst með líðan barna og unglinga og bregðast við niðurstöðunum.