Félagsfærni, Heilbrigði, Sjálfsefling

Ég hélt bara að þetta ætti að vera svona

Reynsla kvenna sem upplifðu kynferðisofbeldi í nánu sambandi sem unglingar. Ritgerð Rannveigar Ágústu Guðjónsdóttur til meistaraprófs í kynjafræði við HÍ 2016.

 

Umfjöllunarefni þessarar ritgerðar er kynferðisofbeldi í nánum samböndum unglinga. Megintilgangur rannsóknarinnar var fólginn í að skoða efnið út frá upplifun brotaþola.

Niðurstöðurnar eru settar í samhengi við fyrri rannsóknir um ofbeldi í nánum samböndum unglinga og kenningar um normalíseringu ofbeldis í nánum samböndum. Niðurstöðurnar eru einnig tengdar kvenleika og karlmennsku meðal unglinga. Rannsóknin var gerð með eigindlegum rannsóknaraðferðum. Tekin voru tíu hálf opin einstaklingsviðtöl við jafn marga brotaþola sem upplifað höfðu kynferðisofbeldi í nánu sambandi sem unglingar. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þeir sem verða fyrir kynferðisofbeldi í nánu sambandi á unglingsaldri falli milli flokka og að ekki sé gert ráð fyrir reynslu þeirra innan úrvinnsluþjónustu, réttarkerfisins eða í viðhorfum samfélagsins. Berskjöldun brotaþola, samfélagsviðhorf og normalísering ofbeldisins innan sambandsins gerðu það að verkum að þeim þótti upplifun þeirra jafnvel eðlilegur hluti þess að vera í nánu sambandi og gerðu sér ekki grein fyrir að um ofbeldi væri að ræða. Niðurstöðurnar benda til þess að rétt eins og reynsla af kynferðisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi meðal fullorðinna hafi reynsla af kynferðisofbeldi í nánu sambandi sem unglingur langvarandi afleiðingar á líf og líðan brotaþola. Úrvinnsla brotaþola virðist ekki vera beint ferli fram á við heldur fólgin í ýmsum þáttum samtímis. Ofbeldi í nánum samböndum á sér stað í samfélagslegu samhengi.

Tenging við menntastefnu Félagsfærni, Heilbrigði, Sjálfsefling
Gerð efnis Fræðilegt, Ítarefni
Viðfangsefni Andleg og félagsleg vellíðan, kynheilbrigði, jafnrétti, líkamsmynd, líkamsvirðing, sjálfsmynd, sjálfstraust, samskipti.
Scroll to Top
Scroll to Top