Kennsluefnið í heild sinni má finna á vef Kvennréttindafélags Íslands og er ætlað efri bekkjum grunnskóla 5.-10. bekk.
Það samanstendur af sex æfingum og einu hópverkefni og hver æfing stendur sjálfstætt og því er frjálst að velja og nýta eitt verkefni. Stök æfing gæti átt heima í námsgreinum eins og samfélagsfræði, sögu, íslensku og stærðfræði.
Séu verkefnin tekin saman standa þau sem heilt kynjafræðinámskeið sem hefst á sex æfingum sem allar miða að því að æfa nemendur í að geta unnið að hópverkefni sem ber heitið „Þetta er ekki æfing“. Hópvinnuaðferðina má kynna sér í Litrófi kennsluaðferðanna (2013) undir heitinu efniskönnun í vinnuhópum. Kjarninn í hópverkefninu er að nemendur starfi saman að því að gera verkefni sem þeim finnst mikilvægt. Nemendur eiga að reyna að hafa áhrif á umhverfi sitt og beita sjálfstætt þeim verkfærum sem æfingarnar hafa látið þeim í hendur.