Heilbrigði

Leiðbeiningar til starfsfólks – Kynferðisleg áreitni eða ofbeldi

Börn eiga rétt á því að ræða við starfsfólk í skóla- og frístundastarfi í trúnaði um viðkvæm mál, t.d. um kynferðislega áreitni eða kynferðislegt ofbeldi. Mikilvægt er að starfsfólk haldi ró sinni, hlusti vel á barnið og gæti þess að spyrja ekki leiðandi spurninga. Barnið skal í öllum tilvikum njóta vafans og fá ráðgjöf og stuðning innan skólans/frístundastarfsins þó málið virðist óskýrt. Leiðbeiningar um viðtöl við börn má finna í kafla 8 í handbók um hlutverk skóla þegar kemur að ofbeldi gegn börnum.

Við mælum með því að sækja og nota viðbragðsferil varðandi kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi í skóla- og frístundastarfi.

Bendum einnig á verkefnið Opinskátt um ofbeldi.

Tenging við menntastefnu Heilbrigði
Gerð efnis Fræðilegt, Ítarefni, Vefsvæði
Markhópur Börn 1-16 ára og starfsfólk
Viðfangsefni Andleg og félagsleg vellíðan, forvarnir, Mannréttindi, seigla/þrautseigja
  • Trúnaður

    Starfsmaður er bundinn trúnaði um viðkvæm mál sem barn trúir honum fyrir. Réttur barna til trúnaðarsamskipta er ekki háður því að samþykki foreldris komi til. Mikilvægt er að upplýsa barn í upphafi um rétt þess til að tjá sig í trúnaði og um takmarkanir á trúnaðarskyldu starfsmanns. Í sérstökum tilvikum kann sú skylda að hvíla á starfsmanni samkvæmt lögum að tilkynna mál til barnaverndar, þ.e. ef ástæða er til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu (sjá, 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002). Jafnframt er hugsanlegt að í sérstökum tilvikum, t.a.m. ef fagaðili eða starfsmaður telur að aðkoma foreldra sé nauðsynleg til að tryggja öryggi barns, beri að upplýsa foreldra um mál og rjúfa þar með trúnað. Ávallt skal leitast við eins og frekast er kostur að hafa samráð við barnið fyrirfram ef þörf er talin á að veita öðrum aðilum upplýsingar um málefni sem barn hefur trúað starfsmanni fyrir. Ef rjúfa þarf trúnað við barn ber að skýra barni frá því og ástæðum þess.

    Sjá nánar:
    – Verklagsreglur um tilkynningaskyldu starfsmanna leik- grunn og framhaldsskóla til barnaverndanefnda
    – Vinnsla barnaverndarmála, Handbók fyrir starfsmenn grunnskóla
    – Leiðbeiningar um ritun barnaverndartilkynninga fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva

  • Að tryggja öryggi

    Séu einhverjar vísbendingar um að barnið sé í hættu fyrir frekari áreitni eða ofbeldi þarf að leita allra leiða til að tryggja öryggi þess, í samræmi við eðli málsins. Mögulega þarf að færa barn/börn á milli hópa eða bekkja eða sleppa barni við ákveðnar stundir tímabundið. Í alvarlegri tilfellum skal leita ráðlegginga til þjónustumiðstöðvar eða lögreglu ef barn er talið í mikilli hættu. Ef mál varðar meinta óviðeigandi framkomu starfsmanns gagvart barni, nemanda eða ungmenni skal höfð hliðsjón af verkferli SFS um slík mál.

    Gæta skal að því að taka tilliti til vilja barnsins eins og kostur er.

  • Skráning

    Haga ber skráningu til samræmis við 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem m.a. kemur fram að halda þarf til haga mikilvægum upplýsingum í tengslum við meðferð mála og ef taka á ákvörðun um rétt eða skyldur manna ber að skrá málsatvik. Mikilvægt er að sá aðili sem tekur niður upplýsingar um mál fái ekki of ítarlegar upplýsingar frá barninu því slíkt getur haft áhrif á vinnslu máls ef það fer í gegnum kæruferli. Takið aðeins helstu upplýsingar niður sem skipta máli. Tryggja þarf öryggi gagna í hvívetna og gæta þess að þau séu ekki aðgengileg öðrum en þess þurfa vegna starfa sinna skv. lögum. Við meðferð gagna ber að fara að leiðbeiningum um skjalavörslu grunnskóla og auk þess skal haga meðferð persónuupplýsinga til samræmis við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Góð eftirfylgd mála verður seint ofmetin og ætti að tryggja slíkt í verklagsreglum, enda hefur reynslan sýnt að mörg ofbeldismál hafa langan eftirmála (Guðrún Kristinsdóttir og Nanna Kristín Christiansen, 2014).

  • Tilkynning til barnaverndar ef mál er þess eðlis

    Skylt er að tilkynna til barnaverndar er ástæða er til að ætla að barn hafi orðið fyrir eða sé í hættu á að verða fyrir ofbeldi eða barn sé í hættu á að stofna heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

  • Ráðgjöf og stuðningur við barn/börn

    Áætlun um ráðgjöf og stuðning við barn/börn í kjölfar máls skal vera unnin í samræmi við fulltrúa ráðgjafateymis á Borgarmiðstöð hverfisins. Börn eiga rétt á því að ræða sín mál í trúnaði við starfsmann innan eða utan stofnunar. Varast skal að gera lítið úr upplifun barnanna og veita skal þeim allan þann stuðning sem þörf er á.

    Mikilvægt er að huga bæði að meintum þolanda og geranda ef báðir aðilar eru í skólanum/frístundaheimilinu/félagsmiðstöðinni og stefna ávallt að því að öll sem málinu tengjast fái viðeigandi stuðning og ráðgjöf.

  • Inngrip innan starfsstaðar

    Inngrip í kjölfar máls þarf að sníða að aðstæðum hverju sinni. T.d. getur verið um að ræða aðkomu nemendaverndarráðs og/ eða foreldra, að auka fræðslu til nemenda og starfsfólks, að bjóða upp á viðtöl við námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing eða fagaðila á Borgarmiðstöð. Í einhverjum tilfellum þarf mögulega að færa nemendur á milli hópa/bekkja. Ávallt skal miða að því að meintur gerandi sé færður á milli hópa/bekkja ef gripið er til þess úrræðis, nema ef meintur þolandi óskar eftir því að fara í annan hóp/bekk. Meta skal hvert tilvik eftir aðstæðum hverju sinni en hentugt getur verið að hafa eineltisáætlun skólans til hliðsjónar við verklag málsins.

    Ef  alvarleg atvik eiga sér stað innan skólans skal hafa verklagsreglur um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins vegna grunnskólanema með fjölþættan vanda til hliðsjónar

    Stjórnendur geta haft samband við ráðgjafateymi um kynferðislega áreitni og ofbeldi til að fá ráðgjöf og stuðning í þeim málum sem upp koma. Í teyminu sitja fulltrúar allra þjónustumiðstöðva borgarinnar auk fulltrúa skólahjúkrunarfræðinga og verkefnastýru Jafnréttisskóla Reykjavíkur. Fyrir frekari upplýsingar um teymið eða ósk um aðstoð sendið póst á Jafnréttisskóla Reykjavíkur

    Hér fyrir neðan má sjá hlekki á íslenskt fræðsluefni sem getur nýst vel.

  • Fræðsluefni

  • Viðbragðsferill skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur - Kynferðisleg áreitni og kynferðislegt ofbeldi í skóla- og frístundastarfi

    Smellið hér til að sækja .docx útgáfu af skjalinu.

    Download the PDF file .

     

Scroll to Top