Frístundastarf

Kannanir og skimanir

Foreldrakannanir

Foreldrakannanir skóla- og frístundasviðs eru gerðar meðal foreldra barna í frístundaheimilum Reykjavíkurborgar annað hvert ár. Könnunin er send foreldrum í upphafi árs og niðurstöður liggja fyrir á vormánuðum (mars/apríl). Könnun um félagsmiðstöðvar svara foreldrar barna í 5.-10. bekk samhliða spurningakönnun um grunnskólann sem foreldrar fá annað hvert ár.

Starfsmannakannanir

Starfsmannakönnun Reykjavíkurborgar er gerð meðal allra starfsmanna borgarinnar. Allir starfsmenn fá senda vefslóð í tölvupósti í upphafi hvers ár og hver starfsstaður fær sendar niðurstöður, í heildarsamanburði við sambærilega starfsstaði, sem og borgina í heild sinni.

Rannsóknir og greining

Rannsóknamiðstöðin Rannsóknir og greining gerir árlega kannanir í grunnskólum, hjá börnum í 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Ýmsar upplýsingar í könnuninni nýtast vel í félagsmiðstöðvarstarfi, m.a. geta niðurstöður verið gagnlegar til að ákveða hvaða þætti getur verið mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á í starfinu.

Spurningar R&G snúa að ýmsum þáttum í lífi barna og unglinga, svo sem andlegri og líkamlegri heilsu, tengslum nemenda við jafnaldra, notkun þeirra á netmiðlum, lestur bóka, þátttöku í frístundastarfi og viðhorfi þeirra til jafnréttis. Kannanirnar eru oftast lagðar fyrir á haustönn og kynntar í byrjun vorannar.

Iconar-67Created with Sketch.

Stuðningsefni

Námskeið um innra mat

Námskeið um innra mat í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum með talglærum. Talglærurnar vann Sigríður Sigurðardóttir fyrir Reykjavíkurborg árið 2018 en Sigríður er höfundur bæklings um innra mat sem unnið var fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneyti árið 2016.
Námskeiðið/talglærurnar skiptast í tvo hluta:

• Fyrri hluti: Innra mat og mikilvægi þess
• Seinni hluti: Framkvæmd innra mats

Námskeiðið er gagnlegt þeim sem vilja bæta gæði og árangur skóla- og/eða frístundastarfs með markvissu innra mati. Fyrri hluti námskeiðsins er gagnlegt til að átta sig á hvað innra mat er og mikilvægi þess er. Seinni hlutinn fjallar um framkvæmd innra mats, frá skipulagningu til framkvæmdar og eftirfylgni umbóta.

Námskeiðið getur bæði gagnast þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í innra mati og þeim sem lengra eru komnir.

Gátlistar menntastefnu

Gátlistar menntastefnu er verkfæri fyrir starfsfólk leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs til að meta grundvallarþætti Menntastefnu Reykjavíkurborgar; félagsfærni, sjálfsefling, læsi, sköpun og heilbrigði. Auk þess eru gátlistar um innra mat og mannauð sem styðja vel við áhersluþættina fimm. Mælt er með að starfstaðir skóla– og frístundasviðs Reykjavíkurborgar nýti sér rafræna gátlista menntastefnunnar til að efla starfið og sjá þróun milli ára en auk þess er hægt er að prenta út pdf skjöl og nýta til umræðu á starfsstöðvum.

Bæklingur um innra mat

Leiðbeiningabæklingur um innra mat í grunnskólum, sem einnig nýtist þeim sem vinna að innra mati í frístundastarfi. Bæklingurinn er fyrst og fremst skrifaður fyrir kennara, stjórnendur og aðrar fagstéttir í grunnskólum en gagnast öllum þeim sem koma að skipulagi og framkvæmd innra mats. Bæklingurinn er skrifaður með það í huga að hann nýtist við framkvæmd innra mats á öllum stigum þess, frá skipulagningu til framkvæmdar og eftirfylgni umbóta. Hann getur bæði gagnast þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í innra mati og þeim sem lengra eru komnir.

Umbótaáætlun, form fyrir frístundastarf

Umbótaáætlunarform sem hægt er að nýta þegar frístundaheimili og félagsmiðstöðvar vilja skrásetja helstu þætti er varðar umbótaþætti sem vinna á að. Formið er sett upp út frá sömu köflum og settir hafa verið fram í gæðaviðmiðum ytra mats fyrir frístundastarf. Hægt er að breyta áhersluþáttunum eftir því sem hentar.

Frístundalæsi, eflings máls og læsis á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar

Handbók um frístundalæsi, hugsuð sem hugmyndabanki. Megináherslur handbókarinnar eru reynslunám, áhugahvöt, lært í gengum leik og félagsleg hugsmíðahyggja. Í handbókinni er lögð áhersla á reynslunám barna og að virkja þau til þátttöku með áhugahvatningu. Að læra í gegnum leik er einnig leiðarljós handbókarinnar þar sem þekkingarsköpun á sér stað með leik og í samskiptum við aðra.

Þekkingarmiðstöð í málefnum fatlaðra

Frístundamiðstöðin Kringlumýri er þekkingarmiðstöð í málefnum fatlaðra barna og unglinga á frístundahluta skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur (SFS). Þekkingarmiðstöðin veitir ráðgjöf og er stefnumótandi varðandi allt starf sem viðkemur fötluðum börnum og unglingum og börnum með stuðning á frístundahluta SFS. Þekkingarmiðstöðin stendur einnig að fræðslu fyrir starfsfólk á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum.

Gæðaviðmið fyrir frístundastarf

Gæðaviðmið fyrir frístundastarf hafa verið notuð við ytra mat á vegum Reykjavíkurborgar frá árinu 2014. Ytra mat er liður í að styðja og efla frístundastarf og kemur til viðbótar innra mati. Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar geta nýtt viðmiðin til að vísa leiðina í ákveðnum þáttum, en kaflar viðmiðanna eru fimm; Stjórnun, Frístundastarf (félagsmiðstöðvar), Frístundastarf (frístundaheimili), Mannauður, Staðarbragur og Innra mat.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur einnig gefið út viðmið um gæði starfs á frístundaheimilum þar sem fjallað er um hlutverk og markmið, skipulag og starfsaðstæður, starfshætti, margbreytileika, stjórnun og menntun starfsfólks.

Jafnframt því hefur Mennta- og menningarmálaráðuneyti gefið út, árið 2021, þemahefti um frístundaheimili og sjálfsmatstæki fyrir frístundaheimili. Þemaheftið fjallar um leik og nám á forsendum barna, þar sem m.a. er fjallað um félags- og samskiptahæfni, leik og lýðræði, raddir barna, margbreytileikann og fjölmenningu, mál og læsi, útivist og ævintýri, skapandi starf, samþættingu og samstarf, leiðtoga og þróunarstarf og umgjörð frístundaheimila.

Fylgst með líðan

Hvers vegna áhersla á líðan?

Líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði og vellíðan er mikilvæg forsenda formlegs og óformlegs náms og góðs námsárangurs. Menntun er að sama skapi mikilvæg forsenda heilbrigðis og vellíðunar. Börn og unglingar verja stórum hluta dagsins í skóla- og frístundastarfi og því þarf allt slíkt starf að stuðla að vellíðan þeirra, t.d. með því að skapa jákvæðan skólabrag/staðarbrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum.

Heilsueflandi frístundastarf

Í Starfsskrá frístundamiðstöðva kemur fram að það er hlutverk hvers starfsstaðar að efla og styrkja heilsu og velferð barna, hlúa að verndandi þáttum og lágmarka áhrif áhættuþátta í umhverfinu. Áhersla er lögð á að að vinna með sjálfsmynd, umhyggju, félagsfærni, virkni og þátttöku. Til stuðnings þeirri vinnu væri hægt að nota lista frá landlækni varðandi hreyfingu og útivist, næringu, líðan og lífsstíl. Listinn er ætlaður til þess að hægt sé að skoða hvernig viðkomandi frístundaheimili eða félagsmiðstöð gengur að vinna að settum áherslum, hvað vel er gert og hvar sóknarfærin liggja. Í listanum er hægt að nálgast verkfærakistu um verkefni varðandi hreyfingu og útivist.  

Líðan í mælikvörðum og leiðarljósum skóla- og frístundastarfs

Hér má líta lista yfir valda mælikvarða úr hinum ýmsu könnunum sem snúa með einum eða öðrum hætti að líðan barna og unglinga. Tilgreint er hvaðan hver og einn mælikvarði er fenginn auk þess sem hann er ýmist tengdur við áhersluþætti eða leiðarljós menntastefnu Reykjavíkurborgar. Listinn er tilvalið verkfæri fyrir þá starfsstaði skóla- og frístundasviðs sem vilja fylgjast markvisst með líðan barna og unglinga og bregðast við niðurstöðunum.

Scroll to Top
Scroll to Top