Grunnskólar

Kannanir og skimanir

Foreldrakannanir

Foreldrakannanir skóla- og frístundasviðs eru gerðar meðal foreldra barna í grunnskólum Reykjavíkurborgar annað hvert ár. Könnunin er send foreldrum barna í 1.-10. bekk og er send í upphafi árs, niðurstöður liggja fyrir á vormánuðum (mars/apríl).

Starfsmannakannanir

Starfsmannakönnun Reykjavíkurborgar er gerð meðal allra starfsmanna borgarinnar. Allir starfsmenn fá senda vefslóð í tölvupósti í upphafi hvers ár og hver starfsstaður fær sendar niðurstöður, í heildarsamanburði við sambærilega starfsstaði, sem og borgina í heild sinni.

Rannsóknir og greining

Rannsókn og greining gerir árleg nemendakannanir í 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Spurningarnar snúa að þáttum í lífi barna og unglinga um andlega og líkamlega heilsu, tengsl nemenda við jafnaldra, notkun þeirra á netmiðlum, lestur bóka og viðhorf þeirra til jafnréttis. Kannanirnar eru lagðar fyrir á haustönn og kynntar í byrjun vorannar.

Skólapúlsinn

Skólapúlsinn gerir árlega nemendakannanir í 1.-5. bekk og 6.-10. bekk. Spurningarnar snúa að þáttum í lífi barna og unglinga um líðan, virkni í námi og almennra spurninga um skóla og bekkjaranda. Nær allir grunnskólar í Reykjavík taka þátt í mælingum Skólapúlsins, það er val.

Lesferill

Lesferill er matstæki til að meta grunnþætti læsis s.s. lesfimi, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning. Það var unnið af læsisteymi Menntamálastofnunar og er til afnota fyrir alla grunnskóla, þeim að kostnaðarlausu. Aðgengi að prófunum er rafrænt, inni í Skólagátt. Mælt er með því að prófin séu lögð fyrir alla nemendur reglulega í 1.-10. bekk (í september – janúar – maí). Niðurstöðurnar eru ekki opinberar, nema á landsvísu. Lesferill er valfrjáls möguleiki til að efla skólastarf og eru fyrst og fremst hugsaður sem verkfæri til að bæta kennslu og koma til móts við ólíkar þarfir nemenda.

Lesmál

Lesmál er matstæki sem metur lestur, lesskilning og réttritun nemenda í 2. bekk. Prófi skiptist í átta undirþætti sem mynda eftirfarandi fjóra yfirþætti: umskráningu, lesskilning, hraðlestur og réttritun.

Deildarstjórar sérkennslu sjá um framkvæmd prófsins og umsjónarkennarar hvers bekkjar sjá um fyrirlögn og skráningu. Deildarstjórar sérkennslu koma gögnum til úrvinnslu á skrifstofu skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar sem birtir skýrslu fyrir borgina í heild en auk þess fær hver skóli fær sína skýrslu þar sem fjallað er sérstaklega um niðurstöður viðkomandi skóla og þær bornar saman við borgina alla.

Nánari upplýsingar um Lesmál má fá hjá ráðgjöfum Miðju máls og læsis

Milli mála – málþroskakönnun

Milli mála, málþroskakönnun er fyrir nemendur sem dvalið hafa tvö ár eða lengur á Íslandi eða íslenska nemendur sem hafa dvalið 5 ár eða lengur erlendis. Tilgangur prófsins er að meta hvort börn sem hafa annað móðurmál en íslensku hafi nægilega góð tök á íslensku til þess að fylgjast með skólastarfi í þeim bekk sem þau eru í. Efni prófsins er að miklu leyti byggt á orðaforða, setningagerð og málfari sem notað er í kennslubókum í íslenskum skólum. Prófið er lagt fyrir í upphafi grunnskólagöngu, síðan í lok 4. bekkjar, lok 7. bekkjar og lok 9.bekkjar.

Iconar-67Created with Sketch.

Stuðningsefni

Námskeið um innra mat

Námskeið um innra mat í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum með talglærum. Talglærurnar vann Sigríður Sigurðardóttir fyrir Reykjavíkurborg árið 2018 en Sigríður er höfundur bæklings um innra mat sem unnið var fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneyti árið 2016.
Námskeiðið/talglærurnar skiptast í tvo hluta:

• Fyrri hluti: Innra mat og mikilvægi þess
• Seinni hluti: Framkvæmd innra mats

Námskeiðið er gagnlegt þeim sem vilja bæta gæði og árangur skóla- og/eða frístundastarfs með markvissu innra mati. Fyrri hluti námskeiðsins er gagnlegt til að átta sig á hvað innra mat er og mikilvægi þess er. Seinni hlutinn fjallar um framkvæmd innra mats, frá skipulagningu til framkvæmdar og eftirfylgni umbóta.

Námskeiðið getur bæði gagnast þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í innra mati og þeim sem lengra eru komnir.

Gátlistar menntastefnu

Gátlistar eru verkfæri fyrir starfsfólk leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs til að meta grundvallarþætti Menntastefnu Reykjavíkurborgar; félagsfærni, sjálfsefling, læsi, sköpun og heilbrigði. Auk þess eru gátlistar um innra mat og mannauð sem styðja vel við áhersluþættina fimm. Mælt er með að starfstaðir skóla– og frístundasvið Reykjavíkurborgar nýti sér rafræna gátlista menntastefnunnar til að sjá þróun og til að efla starfið en auk þess er hægt er að prenta þá út og nýta til umræðu á starfsstöðvum.

Gæðaviðmið í grunnskólum

Gæðaviðmið fyrir grunnskólastarf hafa verið notuð við ytra mat á vegum Menntamálastofnunar og hjá Reykjavíkurborg. Ytra matið er liður í að styðja og efla skólastarf og kemur til viðbótar innra mati skólanna. Grunnskólar geta þó einnig nýtt viðmiðin til að vísa leiðina í ákveðnum þáttum, en kaflar viðmiðanna eru; Stjórnun og fagleg forysta, Nám og kennsla, Innra mat.

Bæklingur um innra mat

Leiðbeiningabæklingur um innra mat í grunnskólum er gagnlegur þeim sem vilja bæta gæði og árangur skólastarfs og þar með nám og velferð nemenda með markvissu innra mati. Bæklingurinn er fyrst og fremst skrifaður fyrir kennara, stjórnendur og aðrar fagstéttir í grunnskólum en getur einnig gagnast öllum þeim sem koma að skipulagi og framkvæmd matsins, t.d. fulltrúum foreldra og nemenda í matsteymum. Bæklingurinn er skrifaður með það í huga að hann nýtist við framkvæmd innra mats á öllum stigum þess, frá skipulagningu til framkvæmdar og eftirfylgni umbóta. Hann getur bæði gagnast þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í innra mati og þeim sem lengra eru komnir.

Gátlisti fyrir vettvangsathugun í grunnskólum

Vettvangsheimsóknir (hjá kennurum og stjórnendum) í kennslustundir geta verið gagnlegar til að efla og þróa skólastarf. Mikilvægt er að þegar farið er í kennslustundirnar að hafa ákveðin markmið sem horft er til þegar verið er að meta. Meðfylgjandi gátlisti/vettvangseyðublað hefur m.a. verið nýtt við ytra mat en er jafnframt gagnlegt þeim sem vilja nýta vettvangsheimsóknir til að styrkja starfið innan skólans.

Umbótaáætlun, form sem starfsstaðir geta nýtt

Umbótaáætlunarform sem hægt er að nýta þegar starfsstaðir vilja skrásetja helstu þætti er varðar umbótaþætti sem vinna á að. Formið er sett upp út frá sömu köflum og settir hafa verið fram í gæðaviðmiðum um grunnskóla. Starfsstaðir geta hinsvegar breytt áhersluþáttunum eftir því sem hentar, en nýtt formið.

Foreldrasamstarf – viðmið um gæði foreldrsamstarfs

Starf skólaráðs og foreldrafélags er álitið mikilvægt í öllu skólasamfélaginu. Skólinn, foreldrafélag og skólaráð vinna saman að eflingu góðs skólabrags í samstarfi við nemendur m.a. með sameiginlegum atburðum og ákvörðunum. Leiðbeinandi viðmið um gæði foreldrasamstarfs getur verið gagnlegt fyrir skóla að vinna eftir og birta foreldrum.

Mælitæki um þróun skólastarfs

Matstæki um þróun skólastarfs í anda hugmynda um einstaklingsmiðað nám, lýðræðislegt og nemendamiðað skólastarf og lærdómssamfélag. Þættir matstækisins skiptist í 6 hluta: Skipulag og stjórnun –  Stefnumörku, innra mat og starfsþróun –  Námsumhverfi – Nemendur – Kennarar – Foreldrar og grenndarsamfélag. Hver þáttur er með fimm stiga kvarða þar sem 1. stig lýsir skólastarfi hér á landi eins og það var frá upphafi almenningsskóla í þéttbýli og fram eftir 20. öldinni. Á 5. stigi er dregin upp framtíðarsýn um skólastarf miðað við hugmyndir um einstaklingsmiðað nám og samvinnu nemenda, lýðræðislegt skólastarf og lærdómssamfélag. Stigunum þar á milli er ætlað að lýsa þróuninni.

Matstækið nýtist bæði kennurum og stjórnendum skóla, m.a. sem hluti af sjálfsmati og í þróunarstarfi yfir skólaárið.

Fylgst með líðan

Hvers vegna áhersla á líðan?

Líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði og vellíðan er mikilvæg forsenda formlegs og óformlegs náms og góðs námsárangurs. Menntun er að sama skapi mikilvæg forsenda heilbrigðis og vellíðunar. Börn og unglingar verja stórum hluta dagsins í skóla- og frístundastarfi og því þarf allt slíkt starf að stuðla að vellíðan þeirra, t.d. með því að skapa jákvæðan skólabrag/staðarbrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum.

Heilsueflandi grunnskóli

Ein af bestu leiðunum til að vinna markvisst að vellíðan og gleði í skólastarfi að er nýta nálgun Embættis landlæknis að Heilsueflandi grunnskóla. Nálguninni er ætlað að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi og skólabrag sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan bæði nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Lagt er upp með áhersluþættina geðrækt, mataræði, tannheilsu, hreyfingu, öryggi, heimili, lífsleikni, nemendur, nærsamfélag og starfsfólk og fá skólarnir aðgang að gátlistum á rafrænu formi sem hjálpa til við stöðumat og styðja við innleiðingu heilsueflandi skólastarfs. Heilsueflandi grunnskóli er hluti af Heilsueflandi samfélagi og Lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar.

Líðan í mælikvörðum og leiðarljósum skóla- og frístundastarfs

Hér má líta lista yfir valda mælikvarða úr hinum ýmsu könnunum sem snúa með einum eða öðrum hætti að líðan barna og unglinga. Tilgreint er hvaðan hver og einn mælikvarði er fenginn auk þess sem hann er ýmist tengdur við áhersluþætti eða leiðarljós menntastefnu Reykjavíkurborgar. Listinn er tilvalið verkfæri fyrir þá starfsstaði skóla- og frístundasviðs sem vilja fylgjast markvisst með líðan barna og unglinga og bregðast við niðurstöðunum.

Scroll to Top
Scroll to Top