Menntastefna Reykjavíkurborgar hvetur okkur til að þróa skóla- og frístundastarf í skapandi lærdómssamfélag sem mætir þörfum 21. aldarinnar. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að skóla- og frístundasvið hafi frumkvæði að því að skapa vettvang sem stuðlar að þróun þess. Með þátttöku í lærdómssamfélagi fær starfsfólk í skóla- og frístundastarfi tækifæri til að tengjast, miðla þekkingu og reynslu ásamt því að byggja upp traust og samvinnu.
Starfsfólk skrifstofu Skóla- og frístundasviðsveitir fjölbreytta ráðgjöf og stuðning m.a. með miðlun upplýsinga á sérstökum vefsvæðum sem stutt geta við innleiðingu menntastefnunnar og stuðla að þróun og nýsköpun.
Skóla- og frístundasvið og Menntavísindasvið Háskóla Íslands hafa gert með sér samning sem felur í sér að skóla- og frístundasvið greiðir fyrir skipulag og utanumhald sértækra námskeiða og ráðgjöf og leiðsögn frá MVS til starfsstaða og MVS hýsir viðburði og kynnir starfsemi SFS á sviðinu. Má þar nefna viðburði þar sem menntastefnan og áhugaverðar rannsóknarhugmyndir fyrir meistaranema eru kynntar. Einnig viðburði þar sem nýsköpun og þróun í skóla- og frístundastarfi eru kynnt. Starfsstaðir geta óskað eftir að fá fræðslu og ráðgjöf frá kennurum á menntavísindasviði með því að hafa samband við Hildi Örnu Hakansson starfsþróunarstjóra hjá NýMennt.